36

 

 

Ekkert orð er skrípi, ef það stendur á réttum stað.
- Vettvángur dagsins.

 

 

 

 

 

.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Innskráning

Ferða,safna og menningarmálastefna

Stefna í ferða-, safna- og menningarmálum 

Menningarlífið er ein af auðlindum hvers bæjarfélags. Með þessari stefnu er lagður grunnur að eflingu þess og auknu aðgengi heimamanna jafnt sem ferðafólks að þessari auðlind.

Gott og mikið menningarstarf er annars vegar staðfesting á að samfélagið búi yfir þeim lífsgæðum sem íbúarnir óska sér og hins vegar býður sú fjölbreytta starfsemi sem byggir á menningu upp á nýsköpun í atvinnu og fjölgun starfsgreina sem hverju atvinnusamfélagi er nauðsynlegt til vaxtar og þroska. Nýta ber þau tækifæri, krafta og aðstöðu sem falin eru í auknu samstarfi milli stofnana og aðila á ólíkum sviðum.

Brýn nauðsyn er hverju samfélagi að leggja rækt við og styðja þá einstaklinga, félög, stofnanir eða fyrirtæki sem standa að menningu á einn eða annan hátt. Í menningarstarfinu birtist hugur og sál samfélagsins.

Markmið og leiðir

Stefnt skal að því að í Sveitarfélaginu Garði blómstri öflugt lista- og menningarlíf. Mannlíf sveitarfélagsins hefur vaxið og dafnað í mikilli náttúruparadís, einstakri fjallasýn, sólaruppkomu og sólarlagi allan ársins hring. Strandlengja Garðsins frá Garðskagavita inn að Berghólum er einstakt útivistarsvæði sem hefur upp á margt að bjóða og dregur að sér mikinn fjölda fólks allt árið. Byggðasafnið á Garðskaga er á margan hátt sérstakt og endurbygging Útskálahússins hefur mikið menningarsögulegt gildi. Fornminjar má víða finna á svæðinu.

Hér eru tilgreindir helstu þættir sem mikilvægt er að komi fram í menningarstefnu sveitarfélagsins:

Sjónlist

Hugtakið sjónlist nær yfir sköpun í þrívídd, málverk og aðra myndlist og handverk af ýmsum toga og er einhver sýnilegasti hluti listsköpunar í Sveitarfélaginu Garði.

 • Keypt verði listaverk á hverju kjörtímabili. Verkunum verði valinn staður í stofnunum á vegum sveitarfélagsins eða utan dyra.
 • Gerð verði skrá um listaverkaeign bæjarins.
 • Hugað verði að listskreytingum frá upphafi hönnunar í nýbyggingum á vegum Sveitarfélagsins Garðs.
 • Hvatt verði til stofnunar félags listafólks í bænum.
 • Handverksfólki verði áfram sköpuð aðstaða fyrir muni sína.

Tónlist

Í Sveitarfélaginu Garði er fjölbreytt tónlistarmenning og tónlistarsköpun á sér merka sögu.

 • Rekstur Tónlistarskólans verði tryggður áfram.
 • Stutt verði  við frumkvæði einkaaðila í tónlistartengdum verkefnum.
 • Að leitast verði við að fá starfandi tónlistarmenn eða nema í tónlistarnámi í Sveitarfélaginu Garði til að flytja tónlist þegar fulltrúar sveitarfélagsins standa fyrir móttöku eða öðrum opinberum viðburðum.
 • Æfingarhúsnæði fyrir hljómsveitir verði fyrir hendi í samráði við félagsmiðstöð eða Tónlistarskóla.
 • Að fjölbreyttum tónlistararfi sveitarfélagsins verði haldið á lofti á hátíðum t.d. með sérstakri tónlistarhátíð eða útgáfu.
 •  Stutt við öflugt kórastarf í sveitarfélaginu.

Ritlist

Bókasafnið í Sveitarfélaginu Garði er starfrækt sem skóla- og bæjarbókasafn sem byggir á gömlum stofni.

 • Stuðla að uppbyggingu bókasafnsins, það komist í viðunandi húsnæði og geti starfað að markmiðum um nútíma- og faglega upplýsingaþjónustu með nýjustu rafrænum miðlum og lestraraðstöðu.
 • Að bókasafnið í Sveitarfélaginu Garði safni saman efni um skáld sem ættuð eru úr sveitarfélaginu sem síðan yrði sett á heimasíðu safnsins.
 • Að hlutverk safnsins verði skilgreint upp á nýtt sem menningar-, fræðslu- og upplýsingamiðstöð.
 • Að árlega verði haldin samkeppni um leikverk, sögur eða ljóð t.d. í tengslum við Sólseturshátíð eða aðrar hátíðir.
 • Að örva og hvetja til meiri sýnileika á afrakstri þeirra sem iðka ritstörf og einnig þeirra sem skila góðum árangri á því sviði í grunn- og framhaldsskóla t.d. með upplestri eða birtingu.

Leiklist

Litla leikfélagið var starfandi í Sveitarfélaginu Garði fyrir nokkrum árum. Mikil gróska hefur alltaf verið í leiklist hjá unga fólkinu í félagsmiðstöðinni og á árshátíð Gerðaskóla.

 • Húsnæði og aðstaða til flutnings leikverka verði aukin og bætt.
 • Hvatt verði til að kennsla í framsögn, tjáningu og leiklestri verði fastur liður í starfi leik- og grunnskóla.
 • Hvatt til þess að leikhópar séu starfandi í sveitarfélaginu.

Reglulegar hátíðir, samkomur og viðburðir

Hátíðir hafa verið haldnar reglulega í Sveitarfélaginu Garði. Þær efla sjálfsmynd sveitarfélagsins og kynna það út á við.

 • Efla þarf vöxt og viðgang hátíða sem byggja á sérstöðu, sögu, menningu og arfleifð Sveitarfélagsins Garðs.
 • Sólseturshátíðin verði fastur viðburður ár hvert og gert ráð fyrir fjárveitingu til hátíðarinnar hverju sinni.
 • Heildarskipulag menningarviðburða verði unnið í samráði við Ferða-, safna- og menningarnefnd og viðburðadagatal sett upp. Sveitarfélagið Garður leggi sig fram um að styrkja þá einkaaðila sem halda hátíð með niðurfellingu ýmissa gjalda s.s. húsaleigu, leggi til húsnæði eða aðstoð stofnanna án endurgjalds.
 • Horft verði sérstaklega til haust- eða vetrarmánaða við skipulagningu hátíða / viðburða  en á þeim árstíma er mikið sóknarfæri.
 • Séð verði til þess að fyrirtæki og stofnanir í Sveitarfélaginu Garði geti kynnt vörur sínar og þjónustu á sýningu a.m.k. fjórða hvert ár.
 • Hlúð verði að starfsemi þeirra félaga sem starfandi eru í sveitarfélaginu.

Söfn og sýningar

Í Sveitarfélaginu Garði eru Byggðasafnið á Garðskaga, Skóla- og bæjarbókasafnið í Gerðaskóla og Menningarsetrið að Útskálum.

 • Standa þarf vörð um og efla rekstur þeirra safna og setra sem sveitarfélagið er aðili að og efla safna- og sýningaraðstöðu.
 • Stutt verði við uppbyggingu Menningarsetursins á Útskálum.
 • Aðkoma fagfólks að sýningum og kynningum á söfnunum verði efld.
 • Hvetja til aukins samstarfs  milli safna og stofnana Sveitarfélagsins Garðs svo íbúar nýti sér þjónustu safnanna í meira mæli.
 • Vinnuaðstaða Byggðasafnsins verði bætt.
 • Vitavarðarhúsið verði nýtt undir menningarstarfsemi s.s. sýningar og fleira og það lagfært í áföngum.
 • Samkomuhúsið verði lagfært í áföngum og það notað fyrir margþætta menningarstarfsemi.

Börn, ungmenni og eldri borgarar

Þjóðmenning okkar hefur frá upphafi byggðar byggt á samskiptum eldri kynslóða við hinar yngri.
Þannig hefur þekkingu, reynslu, mannviti og menningu verið miðlað frá einni kynslóð til annarrar.

 • Stuðla skal markvisst að samskiptum milli eldri kynslóða Sveitarfélagsins Garðs við hinar yngri í gegnum skólastarf eða félagsstarf og ýmis samvinnuverkefni.
 • Hlúa skal að hlut barna, ungmenna og eldri borgara í tengslum við hátíðir og viðburði í sveitarfélaginu.
 • Efla starfsemi félagsmiðstöðvar svo að þar dafni starfsemi  lifandi sköpunarhúss með fræðslu, skemmtun og skapandi vinnu á forsendum þeirra sem þangað sækja.
 • Hlúa að listsköpun barna í skólum bæjarins og verði sköpun þeirra sýnileg með t.d. sýningum og hátíðum.
 • Styrkja þarf menningarstarf ungs fólks í sveitarfélaginu.
 • Eldri borgarar fái áfram notið aðstöðu þar sem þeir geta unnið að listsköpun og  öðrum verkefnum og hugðarefnum.

Menningarminjar og náttúra

Í Sveitarfélaginu Garði á sér rætur mikil og mögnuð menningarsaga, allt frá landnámsöld. Það er saga landbúnaðar, sjósóknar, verslunar og samgangna. Þessa sögu ber að varðveita og auðvelda aðgang að hvort sem um er að ræða heimildir, örnefni eða einstaka staði í náttúrunni s.s. Skagagarðinn sem bærinn tekur nafn sitt af.

 • Útivistarsvæðið við Garðskagavita verði skipulagt þannig að sérstaða svæðisins glatist ekki.
 • Fornleifaskráningu og örnefnaskráningu verði haldið áfram og afrakstur þeirrar skráningar gerður aðgengilegur á heimasíðu.
 • Stuðla skal að húsavernd í sveitarfélaginu til verndar byggingararfi og heilstæðri götumynd.
 • Upplýsingaskiltum með nöfnum húsa, sögu og arkitektúr ætti að koma upp við gömul hús.
 • Frásagnir eldri borgara ætti að skrá og viðtöl tekin upp eða kvikmynduð og varðveitt.
 • Koma þarf upp fleiri upplýsingaskiltum á sem flestum sögustöðum, t.d.við flugvöllinn og fleiri staði og bæta aðgengi að göngustígum, reiðhjólastígum og reiðgötum.
 • Strandlengjan meðfram Sveitarfélaginu Garði er mikil náttúruparadís sem er á náttúruminjaskrá, gæta þarf þess að halda svæðinu hreinu og ómenguðu.
 • Standa vörð um fuglalífið sem er einstakt og með því mesta í Evrópu. Auka samvinnu við Fuglavernd varðandi aðgengi og aðstöðu fyrir fuglaskoðun.

Menningartengd ferðaþjónusta

Þjónusta við ferðamenn er einn af vaxtabroddum í atvinnumálum á hverjum stað. Á skipulegan hátt er gestum sýnt það sem markverðast er og sérstakt og að þeir fái upplifað valda þætti úr sögunni.

 • Ferðaþjónustan verði efld og grundvöllur skapaður fyrir aukna ferðatengda starfsemi í samvinnu við ferðamálasamtök.
 • Tekið verði þátt í uppbyggingu og skipulagi ferðamála á Suðurnesjum í samstarfi við Ferðamálasamtök Suðurnesja.
 • Tengsl við ferðaþjónustufyrirtæki verði efld með það að markmiði að Garðskaginn verði sjálfsagður viðkomustaður þegar ferðast er um Suðurnes.
 • Upplýsingar um þjónustu og sérstöðu Sveitarfélagsins Garðs liggi fyrir á Upplýsingamiðstöð Reykjaness og sem víðast.
 • Gönguleiðir og sögustaðir verði merktir og aðgengi ferðamanna að fjörunni bætt.
 • Kannaðir verði möguleikar á því að einkaaðilar reki sumarhús og gistihús t.d. í námunda við golfvöllinn í Leiru.
 • Bryggjan verði lagfærð með tilliti til öryggis svo hún henti til strandstangveiða, einnig gerð aðstaða fyrir kafara og kajakræðara.

Samstarf við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum

Samstarf við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum er  mikilvægt og hefur sameiginleg stefna í menningarmálum verið mótuð. Í henni var lögð áhersla á samstarf og mikilvægi þess að hugsa heildrænt jafnframt því að byggja upp sérstöðu hvers bæjarfélags.

 • Leggja skal áherslu á að standa vörð um Menningarráð Suðurnesja og að ríkið haldi áfram að styrkja menningarstarfsemi á landsbyggðinni.
 • Menningarfulltrúar sveitarfélaganna á Suðurnesjum hafi gott samstarf.
 • Styðja skal við sameiginleg menningarverkefni.

Norrænt samstarf

Íslensk menning byggist á norrænni arfleifð. Frá því er land byggðist hafa samskipti við hin Norðurlöndin verið mikil og eru enn. Þessi samvinna eykur gagnkvæman skilning auk þess sem við kynnumst nýjum straumum í menningarmálum þegar samskipti við nýja vinabæi okkar eru hafin á formlegan hátt.

 • Stuðla skal að gagnkvæmum samskiptum bæjarbúa og íbúa vinabæja okkar á Norðurlöndum
 • Vinabæjartengslin verði nýtt til norrænna samskipta allra aldurshópa.
 • Hafa upplýsingar um heimasíður vinabæjanna á heimasíðu Sveitarfélagsins Garðs
 • Rækta samskiptin við vinabæi okkar af alúð.

Menningarstefnu þessa skal endurskoða fyrir árslok 2010 með það í huga að sjá hvaða markmið hafi náðst á tímabilinu og ákveða hvaða skref skuli taka næst til að efla menningarlíf og menningaraðstöðu í Sveitarfélaginu Garði.

Garði,  2009

 

 

 

Færðu mig upp fyrir alla muni!